Lög Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis

1. gr.
Félagið heitir Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis, einnig nefnt og skammstafað SKOTREYN og hefur kt. 440687-1809.

2. gr.
Heimili félagsins og varnarþing er í Álfsnesi, 116 Reykjavík.

3. gr
Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að áhuga, þekkingu og leikni félagsmanna, m.a. með:
Rekstri og umsjón skotæfingasvæðis.
Fræðslu fyrir félagsmenn
Hagmunabaráttu í samstarfi við önnur félög s.s. landssamtök skotveiðimanna (Skotveiðifélag Íslands, Skotvís)

4. gr.
Tilgangi sýnum hyggst félagið fyrst og fremst ná með:
Kynningarstarfi
Með því að halda opnu skotæfingarsvæði félagsins
Viðburðum í samstarfi við samstarfs- og hagsmunaaðila
Ýmissi annarri þjónustu sem tengist félaginu og skotveiði beint og óbeint

5. gr.
Félagi getur hver sá orðið sem er sjálfráða einstaklingur og játast undir lög og starfsreglur félagsins. Fullgildur félagi telst sá er hefur greitt félagsgjaldið fyrir það starfsár og hefur ekki verið strikaður út úr félagaskrá.
Verði félagsmaður 67 ára fyrir aðlfund félagsins og hafi hann jafnframt verið félagi í SKOTREYN í a.m.k. 5 ár skal hann skoðast ævifélagi og borgar ekki félagsgjöld upp frá því. Ævifélagi hefur sömu réttindi og skyldur og aðrir félagar í SKOTREYN.

6. gr.
Enginn félagsmaður getur borið ábyrgð á skuldbindingum félagsins umfram greitt félagsgjald.
Enginn félagsmaður á tilkall til eigna félagsins þó svo hann hverfi úr félaginu eða félagið verði leyst upp.

7. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum, þ.e. formanni, ritara, gjaldkera, tveimur meðstjórnendum og að auki tveimur varamönnum. Ritari telst einnig varaformaður og gegnir skyldum formanns í fjarveru hans.
Stjórnarmenn skulu hafa jafnan tillögu- og atkvæðarétt en varamenn þó aðeins tillögurétt. Sjái stjórnarmaður sér eigi fært að mæta til atkvæðagreiðslu stjórnarfundar er honum heimilt að tilnefna annan varamanna til þess að fara með atkvæðarétt í hans stað, að öðrum kosti flyst sú heimild til þeirra stjórnarmanna er fundinn sitja.
Formaður er kosinn til tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn eru einnig kosnir til tveggja ára. Formaður og ritari skulu kosnir sitt hvort árið. Komi til afsagnar ritara eða formanns skal nýr kosinn í hans stað en skal sá eigi sitja lengur en sem nemur kjörtímabili forvera hans. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur en tvö kjörtímabil í röð.
Kosnir eru tveir skoðunarmenn ársreiknings á aðalfundi og skulu þeir hafa að lágmarki viku fyrir aðalfund til þess að fara yfir ársreikning en þeir mega ekki hafa unnið að bókhaldi eða gerð ársreiknings fyrir félagið fyrir það ár. Skoðunarmenn skulu samþykkja ársreikning með áritun sinni fyrir aðalfund, ef þeir telja ársreikninginn gefa sanna og glögga mynd af stöðu félagsins. Skoðunarmenn eru einungis kosnir til eins árs í senn.

8. gr.
Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir. Óski tveir stjórnarmenn eftir stjórnarfundi skal til hans boðað innan vikutíma.
Öll eignaumsýsla og dagleg umsjón félagsins er í höndum stjórnar en bókhald þess og ársuppgjör félagsins skulu unnin af öðrum og óháðum aðila sem þó má vera félagsmaður.
Firmaritun félagsins er í höndum meirihluta stjórnar. Skoðunarmenn skulu hafa áritað ársreikning með áritun sinni, áður en félagmönnum er kynntur ársreikningurinn.

9. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið og skal aðalfundur félagsins haldinn eigi síðar en 1.mars ár hvert. Óski a.m.k. 15 félagsmenn formlega eftir aukaaðalfundi skal stjórn verða við þeim óskum og boða til hans eigi síðar en 30 dögum eftir að skrifleg beiðni hefur borist.
Formaður setur fundinn og skal fundarstjóri kosinn í upphafi fundar. Stjórn skal gera upp árangur liðins árs með skýrslu formanns og birtingu ársreikninga. Aðeins fullgildir félagar mega vera þátttakendur í aðalfundi, nema með sérstöku boði stjórnar og skulu þeir þá eigi hafa atkvæðarétt enda eru þeir ekki fullgildir félagar.
Á aðalfundi hafa atkvæðarétt allir fullgildir félagar þess starfsárs.
Stjórn skal boða til aðalfundar eigi síðar en 10 dögum fyrir uppgefinn fundartíma og skal að lágmarki birta auglýsingu á vefsíðu félagsins.

10. gr.
Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi félagsins og skal það eigi taka gildi fyrr en á næsta starfsári.
Óski stjórn eftir heimild til upptöku inngöngugjalda fyrir nýja félaga sem og upptöku æfingagjalda , sem taki gildi þá þegar, skal það borið undir aðalfund sem skal greiða um það atkvæði og telst samþykkt fengin með einföldum meirihluta kosningabærra fundarmanna.
Inngöngugjald skal aldrei nema hærri upphæð en helmingi af félagsgjaldi.

11. gr.
Berist stjórn kvörtun vegna hegðunar eða athafna félagsmanns eða annarra á vettvangi eða viðburðum á vegum Skotreynar skal stjórn skipa þriggja manna aganefnd úr hópi félagsmanna til að fjalla um og niðurstöðu sinni til stjórnar sem mun úrskurða í slíkum málum. Úrskurður stjórnar getur leitt til tiltals, áminningar, brottrekstrar úr félaginu eða útilokunnar frá ákveðnum viðburðum tengdum félaginu.

12. gr.
Verði hagnaður af starfsemi félagsins skal honum varið til uppbyggingar á skotæfingasvæði félagsins eða í aðra þágu félagsmanna.

13. gr.
Ákvörðun um slit félags skal tekin á aðalfundi með a.m.k. 2/3 hluta atkvæða félagsmanna og skal eignum félagsins að uppgerðum skuldbindingum þess ráðstafað til Skotveiðifélags Íslands.

14. gr.
Stjórn félagsins er heimilt að gera samninga við önnur félög sem þó öðlast ekki gildi nema með samþykki einfalds meirihluta kosningabærra fundarmanna á aðalfundi eða löglega boðuðum aukafundi félagsins og skulu slíkir samningar undirritaðir með þeim fyrirvara.
Stjórn hefur heimild til uppsagnar á gerðum samningum telji hún samningsskuld-bindingar ekki þjóna hagsmunum félagsins.

15. gr.
Stjórn skal heimilt að segja upp aðild Skotreynar að Skotvís að fengnu samþykki einfalds meirihluta kosningabærra fundarmanna á aðalfundi eða löglega boðuðum aukafundi félagsins

16. gr.
Tillögur til lagabreytinga skal afhenda stjórn félagsins fyrir lok starfsárs þess og skulu þær birtar af stjórn með fundarboði til aðalfundar félagsins.

17. gr.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins, þann 16.04.2009 og öðlast þegar gildi.