Kæru félagar.

Núna styttist í sumaropnunina og stjórn hefur unnið hörðum höndum að því að undirbúa tímabilið framundan.  Félagið hefur keypt nýtt vallastýrikerfi sem sett verður upp hjá okkur í kringum næstu mánaðarmót.  Nýja kerfið býður uppá ýmsa möguleika, þar með talið að bæta við þráðlausum 12v. kösturum sem hægt er að færa til á völlunum með lítilli fyrirhöfn til að bjóða uppá meiri fjölbreytni af dúfum til að skjóta á.  Allt kostar þetta auðvitað peninga og svo skemmtilega vill til að það liggur gríðarlegt magn af óbrotnum dúfum á svæðinu sem eru að koma undan snjó.  Þetta eru verðmæti sem við eigum að bjarga.  Við ætlum því að efna til 2ja tíma dúfnasöfnunarátaks frá kl. 10-12 næsta laugardag.  Dúfurnar verða seldar í hópamóttökunni og innkoman nýtt í kastarakaup.  Margar hendur vinna létt verk og við skorum á ykkur að láta sjá ykkur og hjálpa til.  Svæðið opnar síðan kl. 12 og þeir sem vilja geta farið beint að skjóta.

Kveðja,

Stjórnin