Dómur er fallin í Hæstarétti vegna máls sem Skotveiðifélag Reykjavíkur og Nágrennis (Skotreyn) höfðaði upphaflega á hendur Umhverfisráðuneyti, Reykjavíkurborg og Íbúasamtökum Kjalarness í kjölfar þess að Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, felldi úr gildi starfsleyfi Skotreynar fyrir æfingasvæði á Álfsnesi.
Niðurstaða Hæstaréttar er sú að úrskurður umhverfisráðherra er felldur úr gildi og starfsleyfi Skotreynar því ennþá í gildi fram til ársins 2020.
Reykjavíkurborg hafði veitt Skotreyn starfsleyfi og þar með heimild til að byggja og starfrækja æfingaskotvelli á landsspildu í nágrenni Sorpu á Álfsnesi eftir að félagið þurfti að víkja frá aðstöðu sem áður hafði verið byggð upp í Miðmundardal nálægt Grafarholti.
Íbúasamtök Kjalarness kærðu þessa veitingu starfsleyfis, meðal annars á þeim grundvelli að deiliskipulag hafi ekki legið fyrir. Umhverfisráðherra felldi í kjölfarið starfsleyfið úr gildi. Skotreyn kærði þá ákvörðun og niðurstaða Hæstaréttar í gær féll félaginu í vil.
Skotreyn er áhugamannafélag um skotveiði sem var stofnað árið 1986 og er tilgangur félagsins rekstur og umsjón skotæfingasvæðis félagsins í Álfsnesi. Félagið er sjálfstætt og uppbygging og rekstur eru fyrir félagsgjöld og sjálfboðavinnu, enda hefur félagið enga launaða starfsmenn. Félagsmenn hafa af miklum dugnaði byggt upp félagsheimili og fjóra skotæfingavelli á Álfsnesi þar sem félagsmönnum sem og áhugamönnum um skotfimi og skotveiði með haglabyssum er boðið upp á frábæra aðstöðu til æfinga.
Félagið er aðili að og vinnur náið með Skotveiðifélagi Íslands að útbreiðslu góðrar veiðimenningar þar sem fyllsta öryggis er gætt og bráðinni sýnd virðing. Þjálfun í skotfimi og meðferð skotvopna eru mikilvægir þættir þeirrar vinnu.
Ákvörðun umhverfisráðherra stofnaði í hættu því óeigingjarna starfi sem félagsmenn hafa unnið við uppbyggingu skotsvæðisins og niðurstaða Hæstaréttar er því mikið fagnaðarefni fyrir skotveiðimenn á höfuðborgarsvæðinu.
Dómur Hæstaréttar er aðgengilegur á vefsvæðinu http://haestirettur.is/domar?nr=9445