Nú er komið að fyrsta móti ársins hjá Skotreyn en það er Páskamótið næstkomandi laugardag þann 31. mars 2018. Mótið verður sko ekki af verri endanum en hann Nikos Mavrommatis, stórskytta með meiru, mun aðstoða mótastjóra við uppsetningu móts. Nikos þekkja margir, en hann er ötull skotkennari og á farsælan feril að baki bæði í Skeet sem og Compak Sporting. Hefur hann hafnað m.a. í 9. sæti í Skeet á Ólympíuleikunum í London 2012 og í 4. sæti í Gríska Grand Prix Compak Sporting mótunum árið 2017 og 2016.
Páskamótinu verður því væntanlega stillt upp í anda Compak Sporting, þar sem von verður á spennandi og skemmtilegum dúfum.
Mæting keppenda er kl. 10:30 en mót hefst kl. 11:00. Mótsgjald verður 3000 kr. og skotnar verða alls 75 dúfur í þremur hringjum. Líkt og á síðasta ári verða tvö skot leyfileg á stakar dúfur, og því er ágætt að keppendur taki með sér aukaskot.
Mótanefnd hvetur sem flesta til að mæta og byrja nýtt keppnistímabil af krafti!