Skotveiðifélag Íslands hefur kært sveitarstjórn Húnaþings vestra fyrir sölu sveitarfélagsins á leyfum til rjúpnaveiða í þjóðlendum. Formaður skotveiðifélagsins segir að með kærunni vilji félagið fá úr því skorið að almannaréttur gildi í þjóðlendum en ekki yfirráð sveitarfélaga.
Skotveiðifélag Íslands hefur lengi deilt við Húnaþing-vestra um leyfi til rjúpnaveiða sem sveitarfélagið hefur nokkur undanfarin ár selt á jörðum og afréttum í sinni eigu. Á síðasta ári var hluti þessa landsvæðis úrskurðað þjóðlenda og til viðbótar er land sem ríkið hefur gert tilkall til.
Selja veiðileyfi á svæði sem þeir eiga ekki
SKOTVÍS hefur nú kært sveitarstjórn Húnaþings-vestra til forsætisráðuneytisins vegna veiðileyfasölunnar. Dúi Landmark, formaður SKOTVÍS, segir að þeim þyki sveitarfélagið vera þarna að seilast heldur langt. „Þeir eru semsagt að selja inn á svæði sem sveitarfélagið á ekki, strangt til tekið, þó þeir hafi beitarréttinn,“ segir hann.
Verða að vera skýrar línur
Með þessu vilji Skotveiðifélag Íslands fá úr því skorið að ráðstöfun veiðileyfa í þjóðlendum sé ekki á valdi sveitarfélaga heldur gildi almannaréttur þar. „Það verða að vera skýrar línur í þessu,“ segir Dúi. „Í dag er staðan dálítið þannig að hinn almenni veiðimaður veit ekkert alltaf hvert hann má fara og ekki fara. Það er eitthvað sem við viljum breyta.“
Munu koma andmælum á framfæri
Ekki náðist í fulltrúa Húnaþings-vestra við vinnslu fréttarinnar. Sveitarfélagið hefur ráðið sér lögfræðing til að koma sjónarmiðum sínum og andmælum á framfæri við forsætisráðuneytið.