Kæri félagi í Skotreyn.

Síðustu daga hefur verið unnið hörðum höndum við að setja upp nýtt vallastýrikerfi á svæðinu okkar.  Oddgeir, Frissi og Stefán Mogensen fá sérstakar þakkir, þeir hafa unnið sleitulaust síðustu daga að því að koma þessu upp með smá hjálp frá öðrum stjórnarmönnum 🙂  Því til viðbótar komu til okkar í dag 4 nýjir kastarar sem bætt verður við á vellina á næstu dögum.  Kerfið þýðir breytingu í því hvernig félagar greiða fyrir dúfur og hvernig vaktmenn standa að uppgjöri.   Í stað afsláttarmiða sem félagar hafa getað notað koma núna kort sem dúfur eru settar rafrænt inná.  Kortin geta félagsmenn með greitt árgjald keypt, en utanfélagsmenn sem vilja kaupa staka hringi fá lánuð kort til að setja inn þær dúfur sem þeir ætla að skjóta.  Þeir sem eiga gamla miða, gula eða appílsínugula geta komið með miðana og skipt þeim fyrir inneign á kortið sitt.  Félagar skanna kortið til að setja dúfur inn á vellina og fer sú vinna af herðum vaktmanna.

Ný verðskrá tekur einnig gildi frá og með deginum í dag.  Verð á 250 dúfum (10 hringjum) verður það sama. Stakir hringir fyrir utanfélagsmenn hækka hinsvegar í verði.  Ný verðskrá verður sett inn á vefinn fljótlega en er aðgengileg uppi í félagsheimili frá og með deginum í dag.

Það tekur vaktmenn og almenna félagsmenn eflaust smá tíma að læra á nýja kerfið og biðjum við félagsmenn að sýna þolinmæði ef upp koma einhver vandamál meðan við erum að sjóast í notkun kerfisins.

Vonumst til að sjá ykkur sem fyrst.

Kveðja

Stjórn Skotreyn